Jóga þýðir heild eða eining og grunnurinn í jógaiðkun er að efla meðvitund um einingu alls sem er. Líkami, tilfinningar og hugur eru ein heild, menn, jurtir og dýr ein heild, sköpunarverkið ein heild. Jógaiðkun eflir meðvitund okkar um það sem er að gerast í augnablikinu hér og nú, líkamlega, tilfinningalega, í huganum og fíngerðari orkusviðunum. Jóga hefur verið stundað á jörðinni í þúsundir ára og hefur hjálpað manneskjunni til að lifa hamingjusöm og frjáls í sátt við sjálfan sig og aðra.
Hatha jóga er sú grein jóga sem hefur orðið hvað vinsælust á vesturlöndum en í hatha jóga er líkaminn kennarinn og unnið er með hatha jógastöður (asana), öndun (pranayama) og slökun (yoga nidra). Með því að iðka hatha jóga nærum við líkamann og sköpum jafnvægi í líkamsstarfseminni s.s. innkyrtlakerfinu, taugakerfinu, vöðvum og stoðkerfi, ónæmiskerfinu, hringrás öndunar og blóðrásar og meltingu. Þegar við iðkum hatha jóga eflum við meðvitund um augnablikið hér og nú, einbeiting okkar eykst og jafnvægi skapast í líkama, tilfinningum og huga. Grunnlíkamsstöðurnar í hatha jóga eru 84 en svo eru til margar útfærslur. Ég legg áherslu á mjög góða slökun og hugleiðslu eftir hvern jógatíma.
Fun-fit jóga er kerfi sem Uriel West þróaði og kenndi meðan hann lifði. Þetta jógakerfi byggir á hatha jóga æfingum og öndunaræfingum en upphitunin er ákveðið flæði og dans. Þetta jógakerfi losar um tilfinningar og er gleðigjafi. Tengsl eru á milli iðkenda og stundum eru æfingar gerða í pörum. Tónun er notuð inn í stöðunum þegar kennarinn er í skapi fyrir það. Þetta kerfi er frekar úthverft og eru æfingarnar gerðar með opin augun.
Yin jóga er kerfi sem Paul Grilley hefur m.a. kynnt, þetta hægláta kerfi sem örvar orkuflæði og viðheldur heilbrigði orkurrása líkamans (Meridian system).